11.5.2008 | 12:05
Takk fyrir og góðan daginn
Eins og líklega hefur komið fram áður, þá er hún Ágústa mín mjög ákveðin lítil stelpa.
Um daginn voru þær stelpurnar að horfa á mynd í sjónvarpinu, ég sat í hægindastólnum og slakaði aðeins á og hlustaði á tónlist. Ég hafði tekið eftir því, að hún hafði verið að gjóa augunum til mín annað slagið en ekkert sagt. Svo stendur sú stutta upp, labbar mjög ákveðin til mín, tekur head-phonið, stingur því í samband, réttir mér og segir:"Hér er sko verið að horfa á sjónvarpið, takk fyrir og góðan daginn." Svo labbar hún í burtu og heldur áfram að horfa á myndina.
Ég sat þarna með head-phonið og reyndi að kæfa hláturinn og hlustaði á Dr. Hook syngja um rónann, sem saknar hana Carrie sína og vill að hún beri sig áfram.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.4.2008 | 17:32
Gleðilegt sumar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.4.2008 | 19:11
Annað kast
Fékk annað kast í vinnunni í gær, verkstjórinn keyrði mig til læknis. Þetta kast var ekki eins slæmt og hitt, en samt nóg til að ég ákvað að kíkja á lækninn. Púlsinn fór upp í 137, sem er náttúrulega allt of hátt. Læknirinn vill meina, að þetta eru streitueinkenni. Hugsið ykkur, ég af öllum manneskjum með streitu. En líklega er það álagið undanfarið, bæði í vinnunni og það að vera nýflutt í nýtt hús. Ég fékk einhverjar töflur, sem lækka púlsinn og þær alveg svín virka. Svo fer ég aftur til læknis eftir svona 10 daga.
Annars er ég lasin í dag, með hálsbólgu og smá hita. Svaf alveg hrikalega illa í nótt, fannst altaf eins og hálsinn væri að lokast og ég væri að kafna. Fór ekki í vinnu í dag og örugglega ekki heldur á morgun. Sunna Mjöll er búin að vera lasin í síðustu viku, hún hefur örugglega smitað mömmu sína.
Ég verð að viðurkenna, að ég er svolítið smeyk núna. Er hrædd um að ég gefi upp öndina þá og þegar, gleymi jafnvel að njóta þess að vera til og sekk mér í einhverjar neikvæðar hugsanir. Ég veit vel að ég má ekki hugsa svona og verð að ná mér upp úr þessu, en þegar maður liggur lasinn heima og hefur ekkert annað að gera en að hugsa, laumast svona hugsanir að manni alveg óvart. Ég man alltaf eftir viðtali, sem Dr. Phil var með. Kona var hjá honum, sem var hrædd um að fá krabbamein og deyja úr því. Hann sagði við hana:"Hugsaðu þér, eftir kannski svona 20-30 ár, þá verður þú fyrir bíl og í þann mund sem þú deyrð hugsarðu:" I´ll be damned, I didn´t suppose do die like this:" Þá hefurðu eytt mörgum árum í að vera hrædd og með áhyggjur í staðinn fyrri að njóta lífsins." Ég held að hún hafi áttað sig þá. Ég reyni að segja þetta við sjálfa mig, þetta kemur, það er ég viss um, þetta er bara svona fyrst eftir áfallið, vonandi. Ég nenni ekki að eyða lífinu í hræðslu, ég vil ekki láta hræðsluna stjórna lífi mínu. Talaði við minn heittelskaða um þetta um daginn og leið þá aðeins betur í nokkra daga, en svo fékk ég annað kast og allt fór aftur í sama farið. Ef þetta hefur ekkert lagast þegar ég fer aftur til læknis, verð ég að nefna það við hann.
Annars er vorið komið hér í eyjum. Blómin farin að stinga upp kollinum úr dökku moldinni, flugurnar farnar að láta sjá sig og tjaldurinn (uppáhalds fuglinn minn) er löngu kominn. Georg setti trampólínið upp um helgina og allt hefur iðað af börnum og lífi síðan, rosa gaman. Það var meira að segja gifting á trampó um daginn. Litla skottan mín giftist vini sínum, honum Tryggva, Sunna var presturinn. Jább, ég á fimm ára gamlan tengdason.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.4.2008 | 12:42
Anemónur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.4.2008 | 14:28
Uppvakning
Vildi bara láta vita af mér. Hef verið mikið upptekin undanfarið, bæði í vinnunni og hérna heima. Var minnt á það í gær að slaka aðeins á. Var í vinnunni, þegar ég fór að fá svimaköst og hraðan hjartslátt. Þetta gerðist nokkrum sinnum, og var mér ekki farið að standa á sama og ákvað að fara heim, en þar sem ég var með svima, þorði ég ekki að keyra heim. Fór því inn á skrifstofu, þar sem báðir verkstjórarnir voru, og spurði, hvort einhver væri til í að keyra mér heim? þeir spruttu báðir upp úr stólunum sínum, annar keyrði mér heim, hinn kom á eftir á bílnum mínum. Góðir yfirmenn þar á ferðinni.
Ég hringdi svo í vakthafandi læknir og sagði hann mér að koma niður á sjúkrahús. Ég mætti þar og var tekið af mér hjartalínurit. Á meðan ég var í tækinu, fékk ég annað svona kast og fór púlsinn upp í 160. Læknirinn var bara ánægður með að þetta skyldi gerast, og eiginlega ég líka, því þá sáu þeir að þetta var ekki bara kerlingavæl í mér. Því næst fékk ég lyf í æð sem lækkaði hjartsláttinn og var ég lögð inn í nokkra klukkutíma, meðan það var verið að fylgjast með mér. Kom heim um kvöldmatarleytið.
Þetta vakti mig heldur betur til umhugsunar. Ég tek þessu sem aðvörun. Ég er ekki tilbúin að kveðja strax og ætla að gera það sem ég get til að svo verði ekki.
Ég ætla í vinnu á morgun, ef ekkert gerist, en á að hafa samband strax annars. Ætla að fara vel með mig héðan af.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.3.2008 | 22:25
Afmælismyndir
Um miðjan mars mánuð var haldið upp á afmælið hennar Sunnu Mjallar, hér koma nokkrar myndir.
Allar vinkonurnar við borðið
Litlu frænkurnar og vinkonurnar, Margrét að hjálpa til.
Að sjálfsögðu mætti Leó Breki og fékk sérbakaða pizzusnúða með engum osti.
Tommi tók þátt í spjallinu...............
.................og nældi sér í smá klapp og klór í leiðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.3.2008 | 17:20
Páskaeggið
Dísa var 11 ára. Hún hafði þykkt, sítt hár niður á mitti. Hún var líka miðjubarn í 5 barna hópi, eina stelpan. Bræður hennar áttu það til að stríða henni og gera at.
Nú var komið að páskunum. Hún var ekki búin að gleyma páskunum fyrir ári síðan. Þá höfðu bræður hennar stolið og borðað páskaeggið hennar, hún fékk ekki einu sinni smá mola. En nú ætlaði hún sko að passa upp á eggið sitt. Hún ætlaði að fela það fyrir bræðrum sínum þar sem þeir gátu ekki náð því.
Kvöldið fyrir páskadag, þegar hún var að fara að sofa, tók hún fallega eggið sitt, þetta var strumpaegg nr. 5 með strympu, og fór að leita að felustað. Hún hugsaði sig vel um og gekk um húsið í leit góðum felustað, en hvað sem hún reyndi, fann hún ekki nægilega góðan stað þar sem bræður hennar myndu ekki finna eggið. Að lokum ákvað hún að hafa það á koddanum hjá sér um nóttina, þá myndi hún vakna, ef bræður hennar kæmu til að taka það. Hún tók plastið af egginu, en hvað þetta var fallegt páskaegg, strympa var í bleikum kjól með spegil. Dísa var yfir sig ánægð með eggið sitt. Hún lagðist á koddann sinn og kyssti eggið góða nótt, svo sofnaði hún.
Um morguninn vaknaði hún við, að eitthvað var límt við kinnina. Hún settist upp, ó þvílík sjón sem mætti henni. Páskaeggið hafði oltið um nóttina, hún hafði legið ofaná því og það hafði bráðnað. Rúmið, andlitið og ekki síst hárið var útatað í súkkulaði. Strympa lá þarna, öll útbíuð með spegilinn sinn. Dísa fór að gráta. Enn einir páskar, þar sem hún fékk ekkert páskaegg. Henni fannst þetta allt bræðrum sínum að kenna, ef þeir hefðu ekki stolið egginu hennar í fyrra, hefði hún ekki þurft að passa svona vel upp á það núna. Mamma hennar kom inn í herbergið til hennar. "Ó, Dísa mín, ósköp er að sjá þetta. Við verðum að redda þessu." þær fóru saman inn í eldhús. Mamma hennar var lengi, mjög lengi að reyna að greiða súkkulaðinu úr hárinu á henni, en það endaði með því að hún neyddist til að klippa fallega síða hárið hennar. Bræður hennar vorkenndu henni og gáfu henni af sínum eggjum. En mikið hlógu þeir nú samt að systur sinni og var þessi saga rifjuð upp um hverja páska í mörg ár eftir þetta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.3.2008 | 21:54
Já, hæ
Vildi bara láta vita af mér, er ennþá með lífsmarki, ef svo má að orði komast. Ekki það, að ég hafi verið eitthvað veik, er blessunarlega laus við þann fjanda, 7-10-13, en hef verið að vinna, vinna og meiri vinna. Er farin að vinna til 3, að minnsta kosti oft lengur og á laugardögum. Þegar ég er búin í þeirri vinnu fer ég í hina vinnuna mína sem er heimilið og allt sem því fylgir. Oft sest ég ekki niður fyrr en um 9 eða 10 leytið á kvöldin, alveg búin og þá langar mig nú ekki mikið til að fara í tölvuna. En þetta er bara stuttur tími sem það er svona mikið að gera í vinnunni, mér finnst meira að segja farið að styttast í sumarfríið. Er ekki alveg búin að ákveða hvenær ég fer í sumarfrí, þarf fyrst að ákveða, hvenær Ágústa hættir á leikskólanum. Ó mæ got........hún er að fara í skóla í haust, en hvað tíminn flýgur áfram, eins gott að njóta hans vel.
Okkur líður rosalega vel í nýja húsinu, frábært í alla staði. Sunneva, rúmið bíður eftir þér. Vonandi getur þú haldið upp á stórafmælið hérna hjá mér í sumar, þú og Ágústa. Hún er í læknisleik akkúrat núna, dúkkan er eitthvað veik og þarf hjúkrun. Yndislegt að fylgjast með henni. Ótrúlegt hvað það að fylgjast með börnunum að leik gefur manni mikið.
Jæja, ætla ekki að þreyta ykkur meira með rausinu í mér, vildi bara sýna smá lífsmark. Góða nótt elskurnar og eigið þið góðan sunnudag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.3.2008 | 20:35
Kveðjustundin
Undanfarna tvo daga hafði hún notað til að þrífa gamla húsið sitt, með hjálp frá góðu fólki. Nú var hún komin aftur á staðinn, sem hún hafði búið í síðastliðin 10 ár. Það þyrmdu yfir hana blendnar tilfinningar við að koma inn í tómt húsið. Þau keyptu þetta hús á sínum tíma, vegna þess að þau neyddust nánast að flýja úr hálf ónýtri íbúðinni sem þau áttu annarsstaðar í bænum. Elsta dóttirin var slæm af astma og var alltaf veik, rakinn í íbúðinni var það mikill.
Nú var hún sem sagt komin aftur til að kveðja gamla húsið sitt. Hún gekk um tómt húsið, herbergi fyrir herbergi. Þau höfðu verið hamingjusöm hérna, en auðvitað höfðu líka verið erfið tímabil. Hún mundi, þegar þau fluttu inn með allt dótið sitt. Þá var miðlungsdóttirin aðeins 10 mánaða, sú elsta 7 ára og sonurinn 10 ára. Hún stoppaði í tröppunum upp á loft, tröppunum sem sú yngsta þá datt niður þegar hún var 14 mánaða gömul. Mikil mildi þótti, að ekki fór verr. Það komu sprungur í kinnbeinin og mikið blóð, en sem betur fer ekkert meira.
Hérna höfðu þau stritað til að gefa börnunum sínum það líf, sem þau óskuðu þeim, barnæsku, betri en sú sem þau hefðu upplifað í drykkju og óreglu hjá feðrum sínum. Það var eitthvað, sem þau reyndu af mestu megni að skýla börnunum sínum fyrir.
Hún settist á mitt gólfið í tómri stofunni, nánast á sama stað og hún hafði sett bílstólinn með yngstu dótturinni þegar hún kom heim með hana af spítalanum, nýfæddri. Tæpum þrem vikum seinna hafði hún lent aftur á spítalanum, hún fékk sturtning eina nóttina, ekki er gott að vita hvað hefði gerst, ef maðurinn hennar hefði ekki verið heima og komið henni á sjúkrahúsið, en það var eitthvað sem hún nennti ekki að velta sér allt of mikið uppúr. Hún var bara þakklát. Þakklát fyrir að hafa fengið að lifa og sjá börnin sín dafna og stækka.
Hún gekk einn síðasta hringinn, ýmsar tilfinningar börðust innra með henni. Hún fann ekki fyrir sorg eða depruð yfir að yfirgefa húsið, heldur gleði yfir þessum árum sem hún hafði eytt hérna, en núna var kominn tími til að breyta til og halda áfram á nýjum stað. Stað, sem hana hafði dreymt um í nokkur ár, en aldrei í sínu lífi búist við að myndi nokkurn tímann verða hennar. Hún hafði verið mjög nægjusöm og þolinmóð gegnum árin, því í sannleika sagt, þá var þetta ekki mjög glæsilegt hús, þó að það hefði kannski einu sinni verið það, þá var núna kominn tími á að gera eitthvað fyrir það. Þau hefðu tekið þá ákvörðun seint í haust, að setja húsið á sölu og ef það væri ekki búið að selja það í sumar, myndu þau gera það upp, en sem betur fer, þá var maður sem var tilbúinn að borga gott verð fyrir það.
Hún opnaði útidyrnar og gekk út í góða veðrið. Fyrir utan mætti hún kisanum sínum, hann hafði líklega hugsað eins og hún, að fara og kveðja óðalið sitt. Hún tók hann upp, setti hann inni í bílinn og saman keyrðu þau í átt að nýja, fallega húsinu sínu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.3.2008 | 13:57
Það tók því
Ég mokaði innkeyrsluna voða vel í fyrradag, mokaði alveg niður í stétt, það var varla snjókorn eftir, það tók því. Pant ekki moka núna.
Annars man ég eftir svipuðu í janúar 1993. Þá var Georg veikur og ég þurfti að fara á apótekið. Klæddi mig í flotvinnugalla og rölti þessa stuttu leið. Þá bjuggum við á Miðstræti, en þar var ekki rutt og var ég að vaða snjóinn upp í mitti. Vestmannabrautin hinsvegar var rudd og náðu ruðningarnir sitt hvoru megin við mig mér upp fyrir haus.
Kisa var alveg í spreng í morgun og vildi komast út, ég opnaði hurðina fyrir henni, en skaflinn náði mér upp á háls. Kisu greyið horfði spyrjandi á mig, eins og hún væri að spyrja hvort þetta ætti að vera lélegur brandari eða eitthvað, snéri svo við og fór í sandkassann sinn.
Miðlungurinn var að passa í gærkvöldi og gisti, en kemst ekki heim núna, hún er í góðu yfirlæti hjá Helga, henni finnst það alveg örugglega ekki leiðinlegt, en kisan þeirra gaut 3 kettlingum í síðustu viku. Gelgjan er í Reykjavík og kemst líklega ekki heim í kvöld, en hún á að koma með seinni ferð.
Sem betur fer mundum við eftir að setja bílinn minn inn í gærkvöld, hann verður örugglega þarna þangað til einhverntímann í sumar, með þessu áframhaldi.
Innisnjóaðir Vestmannaeyingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Matthilda M. Eyvindsd Tórshamar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar