Prjónakaffi

Loksins verður haldið prjónakaffi hér í eyjum. Það verður á þriðjudagskvöldið kl. 20 á Volcano, Miðbær verður með kynningu á Loðbandi, svo skilst mér að það verður handavinnukennari á staðnum. Allir að mæta. (ég ætla allavega að mæta).


Smá prjónablogg

Ég er búin að liggja í flensu undanfarna daga, en er öll að koma til, ætli ég fari ekki í vinnu á morgun. Nú hef ég tíma til að sinna blogginu mínu, hér er eitthvað sem ég hef verið að gera.

Ýmislegt 001

Þessi kjóll er prjónaður úr Kauni garni. Ég á eftir að ganga frá endum, hekla og gera hnappagöt og þvo hann, svo er bara að vonast eftir að einhver eignast stelpu til að vera í honum. Uppskriftin kallas Little sister´s dress og fann ég hana einhverstaðar á netinu.

Ýmislegt 003

Þessi trefill er líka úr Kauni garni. Það má eiginlega kalla þetta prufutrefil, því hann er prjónaður í "köflum" þ.e.a.s. nokkrar umferðir eitt munstur svo annað og svo koll af kolli. Ég notaði gamla bók frá mömmu í þetta verkefni og eru öll munstrin úr henni.

Ýmislegt 025

Um daginn var ég ein í Reykjavík og notaði tækifærið og fór í prjónabúðir. Labbaði Snorrabrautina og Laugarveginn. Í Erlu keypti ég tvær dokkur af hvítu Puddel frá Drops, þaðan lá leiðin í Storkinn og verslaði ég 5 dokkur af yndislega mjúku garni frá Debbie Bliss, man ekki hvað það heitir og nenni ekki niður að gá. Ég endaði svo í Nálinni og varð mér úti um eina dokku af Kauni garni. Ég er svona eiginlega búin að ákveða, hvað þetta verður, kem með myndir þegar það er tilbúið.

Að lokum langar mig að setja inn lagið sem er í spilun í tölvunni minni akkúrat núna. Það er greinilegt að Dennis Locorriere er búinn að láta renna af sér þarna. Svo kemur Sexy eyes þarna líka, ekki amalegt það.


Andy Gibb

Þegar ég var unglingur var ég alveg svakalega skotin í Andy Gibb og fannst hann bara flottastur. Dreymdi dagdrauma um hann (og mig, hehehe). Á ennþá tvær LP-plötur með kappanum. Þetta var eitt af mínum uppáhaldslögum með honum.


Ein ég sit og sauma

Við hjónin fórum i bæinn um síðustu helgi og gistum eina nótt á Hótel Cabin. Við fórum á kjördæmaráðsþing (ég að sjálfsögðu með prjónana með), en um kvöldið bauð Grétar Mar okkur að koma og vera með sér á Næsta bar. Þar sem ég kláraði "fullamannakvótann" minn 12 ára, langaði mig engan veginn að fara og hlusta á röflið í drukknu fólki, en sagði við Georg að fara bara. Ég lét renna í bað með góðu freyðibaði, lagðist þar í bleyti góða stund. Þegar það var búið, kveikti ég á sjónvarpinu og tók fram prjónana mína, rosalega hafði ég það næs. Vinkona mín hafði farið til Reykjavíkur nokkrum dögum áður og verslað fyrir mig eina dokku af Kauni og ég er að verða búin að prjóna lítinn kjól, vantar bara litla stelpu til að fara í, en það eru 3 börn á leiðinni, svo einhver hlýtur að eignast stelpu, nema það verði eins og þegar ég átti Margréti, við vorum 3 systkini sem eignuðumst barn á 21/2 mánaða og öll fengum við stelpur.

En aftur að prjónaskapnum, mér leið alveg rosalega vel, þarna ein á hóteli með prjónana mína og er langt komin með kjólinn, ef ég hefði aðeins meiri tíma hérna heim, væri hann löngu búinn og ég væri byrjuð á einhverju nýju og spennandi. Ég náði að fara í Nálina, en það vor voðalega lítið úrval af Kauni garninu, en ég kaupti þó 3 dokkur, sem nú liggja og bíða eftir að verða að einhverju fallegu.


Þoka í hausnum

Það er nú ekki hægt að segja að ég hafi verið dugleg að blogga undanfarið, það er búið að vera þoka í hausnum á mér undanfarið, en janúar og febrúar fara oft þannig í mig. Mig langar helst bara að sofa og hálf öfunda dýrin sem leggjast í dvala á veturna. Af sömu ástæðu hef ég ekki prjónað neitt af viti, eina skóleista á mig og svo er ég ennþá að rembast við að klára peysuna hennar Íd, reyndar væri hún búin ef hún hefði ekki viljað fá hettu, nú er ég að reyna að hanna hettu á hana. Svo er ég að reyna að nýta alla þessa afganga sem ég á og er búin með tvær húfur, ekkert flókið, bara garðaprjón með röndum, set kannski myndir inn seinna.

En vildi bara láta vita af mér, ég er sem sagt á lífi en hér er mikil þoka þessa dagana, þó svo að sólin kíkir í heimsókn annað slagið.


Elska þetta lag

Þetta lag er búið að vera límt á heilann á mér í tvo daga núna. Freddie var náttúrulega laaaaang flottastur.


Tími á blogg

Jæja, er ekki kominn tími á smá blogg? Ekki það að það hafi neitt sérstakt gerst, bara búin að vera í fríi um jólin og áramótin og byrjaði að vinna aftur í gær, svo er frí á morgun vegna þess að fiskurinn kláraðist.

Ég get þó sagt ykkur það, að þrátt fyrir 3 kg. af Mackintosh, 1 kg. af Nóa Sirius konfekt og nokkrar tegundir af smákökum (fyrir utan allt hitt) þá hef ég ekkert þyngst um jólin, ekki eitt einasta kíló. Mín er ánægð. Nú hljómar það eins og ég hafi étið þetta allt, en sem betur fer fékk ég hjálp hjá hinum fjölskyldumeðlimunum.

Ég hef reyndar ekkert prjónað, eða eiginlega ekkert. Tók aðeins í prjónana meðan ég var að horfa á þriðju LoTR myndina. Prjónaði þá aðeins kjólinn hennar Telmu, hef ekki nenn í mér að halda áfram með Íd, en veit samt upp á mig skömmina. Þoli ekki, þegar eitthvað liggur og bíður eftir mér, svo ætli ég verði ekki að fara að taka í hnakkadrambið á sjálfri mér.

Annars er ég búin að vera í einum skó núna í eina tvo tíma. Ég er föst. Þetta eru forláta Ecco ökklaskór með rennilás í hliðinni og er rennilásinn bilaður. Núna er ég bara að bíða eftir að kallinn komi heim, svo ég geti beðið hann að reyna. Ég tími ómögulega að skemma skóinn með því að klippa upp rennilásinn, enda eru þetta uppáhalds skórnir mínir. Og alveg fok-dýrir. Skoðaði nýjasta módelið af svona skóm í haust og kosta þeir upp undir 20 þús. spírur.

Talandi um spírur. Það er allt farið að spíra úti í garði hjá mér. Það hafa verið svo mikil hlýindi hérna í eyjum undanfarið, að það er allt farið að lifna við, Kósakkadeplan, Völudeplan, Kornblómin og Næturfjólan eru allar komnar af stað. Svo eru einhverjir laukar, held að það sé Muscari, farin að láta sjá sig. Ég hef miklar áhyggjur af þessu, það er jú bara 6. janúar, en garðurinn lætur eins og það sé apríl. Ég er ansi hrædd um að þetta líf sem þarna er að kvikna, eigi eftir að slokkna í næsta frosti, sem kemur alveg örugglega.

Jæja, farin að elda.


Kæru vinir

Ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs með þökk fyrir samskiptin á því gamla.


Gleðileg jól

Jólahlaðborð o.a 057

Óska öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.


Ofan á allt annað

Það er sagt að maður eigi að borða eitt epli daglega útaf járninu og einn banana  til að fá kalíum
Líka eina appelsínu, útaf c-vítamíninu og einn bolla af grænu te án sykurs, til að forðast  sykursýki.  Svo má ekki gleyma lýsinu sem er náttúrulega allra meina bót.
Drekka tvo lítra af vatni alla daga (Já, og síðan að pissa því, sem tekur tvöfaldan tímann sem það tók að drekka það) 
Á hverjum degi borða jógúrt og eitt skot af   LGG út af gerlunum sem enginn skilur hvað gera, en ef þú færð ekki eina og hálfa milljón á dag mun það hafa skelfilegar heilsufarslegar afleiðingar.  

Daglega  taka inn eina aspirín til að koma í veg fyrir hjartaáfall, og drekka eitt rauðvínsglas í sama tilgangi. 
Og annað hvítt fyrir taugakerfið. 
Og einn bjór,  sem ég man ekki hvaða gagn á að gera. 
Ef þú færð þér þetta allt í einu, skaltu gæta þess að eiga einn Red Bull ísskápnum til að drekka  daginn eftir,  nema  náttúrulega ef þú ert  þá búinn að fá heilablóðfall. Ef það gerist, muntu ekki taka eftir því. 
Daglega borða trefjar. Mikið, mjög mikið af trefjum. Þar til þú kúkar heilli peysu.  Það á að borða fjórar til sex máltíðir  á dag, hollar, fitulitlar máltíðir og ekki gleyma að tyggja hvern  munnbita hundrað sinnum. 
Með smá útreikningi er  ljóst að það tekur þig um fimm  klukkustundir á dag að borða. 
Ó, og  síðan  má ekki gleyma að bursta tennurnar eftir hverja máltíð. 
Á eftir jógúrtinu og  trefjunum, tannbursta; á eftir eplinu, tannbursta; á eftir banananum, tannbursta... 
Og á meðan þú ert á annað borð með tennur máttu ekki gleyma tannþræðinum og munnskolinu með tilheyrandi gurgli. 
Best að stækka baðherbergið og setja þar inn hljómflutningstækin þín, því  þar áttu eftir að dvelja drjúgan tíma: vatnsþambið, trefjarnar, tennurnar...
Síðan á að sofa í átta stundir og vinna aðrar átta plús þessar fimm sem fara í að borða. Þetta gerir  tuttugu og eina klukkustund.  Þá áttu þrjár stundir eftir, það er að segja ef ekkert sérstakt kemur uppá þann daginn. 
Samkvæmt  könnunum  eyðum við  þremur stundum daglega í sjónvarp...og ekki gleyma tölvunum!!!  En þú hefur engan tíma í svoeiðis, því daglega áttu að fá þér a.m.k. hálftíma göngutúr  (Ég tala af reynslu: Snúðu við eftir 15 mínútur, því annars verður hálftíminn að klukkustund).

Síðan verður að huga að vinunum því þeir eru eins og blóm: það þarf að vökva þau daglega. Líka þegar þú ferð í frí. Það er að segja ef þú ferð í frí.
Síðan þarf að vera vel upplýstur. Lesa að minnsta kosti tvö dagblöð og eina grein í tímariti til að bera upplýsingarnar saman.

Ah! Síðan er það kynlífið. Kynlíf daglega og þar að auki á það að vera frumlegt og skapandi .  Þetta tekur sinn tíma!!!  Að maður tali nú ekki um tantra kynlíf!!! 
Að öllu framansögðu  vil ég minna þig á: Það á að tannbursta sig eftir hverja máltíð. Það þarf líka að skúra, þurrka af, þvo þvott, fara í sturtu og vaska upp og áttu kannski hund að auki eða hamstur? Börn?! 

Nú reiknast mér til að þetta kalli á um 30 stundir á dag. Eina lausnin á þessum vanda,  er að framkvæma eitthvað af þessum atriðum í einu. Til dæmis: Þú ferð í kalda sturtu með opinn munninn og drekkur þannig lítrana tvo af vatni.  Þegar þú gengur út úr baðherberginu með tannburstann í munninum nýturðu um leið ásta (tantrískt)  standandi með makanum þínum, sem um leið horfir á sjónvarpið og segir þér frá á meðan þú burstar tennurnar. 
Var ein hendi laus?
Hringdu í vinina!!! Og foreldrana!!!
Fáðu þér rauðvín (eftir spjallið við foreldrana muntu þurfa á því að halda) eplið getur makinn þinn matað þig á á meðan þú borðar bananann með jógúrtinu. Úffffff! En ef þú átt tvær mínútur eftir , sendu þetta þá á vinina (sem þú þarft að vökva eins og blóm)  um leið og þú tekur inn eitt hvítlaukshylki  sem er svo gott fyrir... 
 En nú verð ég að hætta því eftir jógúrtið, appelsínuna, bananann, bjórinn, fyrri  vatnslítrann, þriðju máltíðina með trefjum, hef ég ekki hugmynd um það hvað ég er að gera og þarf nauðsynlega að komast á klósettið. 
Aha, ég ætla að nýta tímann og kippa tannburstanum með mér.

Ef ég er senda þér þetta í annað sinn , er það vegna þess að þrátt fyrir að fylgja öllum þessum ráðum  er ég samt komin með alzheimer.  

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Matthilda M. Eyvindsd Tórshamar

Höfundur

Matthilda M. Eyvindsd Tórshamar
Matthilda M. Eyvindsd Tórshamar
Móðir, eiginkona, verkakona og handavinnu- og föndurkona
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 2012 2013 335
  • 2012 2013 336
  • 2012 2013 337
  • 2012 2013 338
  • 2012 2013 340

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband