Færsluflokkur: Bloggar

Þakkir

Þegar ég settist niður í gærmorgunn að skrifa bloggið bjóst ég alls ekki við svona miklum og jákvæðum viðbrögðum. Ég var viðbúin að vera úthúðuð og sökuð um athyglissýki, en sem betur fer fór ekki svo. Öll þessi jákvæðu viðbrögð bæði hér inni á blogginu, á facebook og frá fólki úti í bæ sýnir bara að fólki er sko alls ekki sama um náungann. Svo hef ég líka tekið eftir að fólk er að segja frá eigin reynslu af einelti og losa sig þannig við smá af þeim bagga sem fylgir okkur alla ævi sem höfum lent í þessu.

Ein móðir hringdi í mig í gær, alveg í sjokki. Hana hafði grunað að eitthvað væri í gangi, en að það væri svona slæmt gat engan grunað. Seinna um daginn kom dóttir hennar og önnur stelpa og báðust afsökunar á hegðun sinni. Ágústa mín ljómaði öll þegar hún fór að sofa í gærkvöldi og sagði við mig :"Mamma, nú á ég tvær vinkonur."

Ég hafði samband við skólann í morgun, þá voru stjórnendur þar búnir að lesa bloggið og allt komið í gang að hjálpa stelpunni minni. Kærar þakkir fyrir það.

Í dag kom brosandi stelpa inn í bílinn minn þegar ég sótti hana í skólann. Við fórum upp í hesthús, en hennar yndi eru hestar, og fékk hún að fara í útreiðartúr með eigandanum. Henni fannst æðisleg lykt af sér þegar hún kom heim, í mínu nefi er það bara hestafýla en hjá henni er þetta eins og ilmvatn. :) Síðan fór hún að leika við vinkonur sínar og svo á píanóæfingu og spilaði tvö lög á tónfundi. Núna er hún að leika við frænda sinn sem er árinu eldri en hún og hefur alltaf verið góður við hana, enda á bróðir minn yndisleg börn.

Ég veit vel að þetta er bara byrjunin, en vonandi fer þetta að breytast smátt og smátt og hún verður aftur þessi glaða og yndislega stelpa sem hún hefur alltaf verið, þangað til í haust þegar vandræðin byrjuðu.

Ágústa er ekki eina barnið mitt sem hefur lent í einelti. Stjúpsonurinn og elsta dóttirin lentu í skelfilegu einelti í skólanum og var tekið á þeim málum með misjöfnum árangri, en það var allt öðruvísi. Ég flokka það þannig, að þau lentu í háværu einelti, en þetta einelti Ágústa er búin að ganga í gegnum er þögult. Ég veit ekki hvort að þið skiljið þetta, en þetta "meikar sense" (svo að ég sletti aðeins) fyrir mér.

Enn og aftur takk fyrir jákvæð viðbrögð.

TAKK :)


Félagsleg einangrun = einelti?

Ég er ekki týpan sem er vön að flagga mínum mín vandamálum fyrir alþjóð, en nú verð ég að fá útrás.

Yngsta dóttir mín, 9 ára, er orðin svo félagslega einangruð af jafnöldrum sínum að ég get ekki þagað lengur. Hún á enga vinkonu í bekknum sínum (þessi eina sem hún átti í bekknum var flutt í annan bekk). Það eru reyndar tveir strákar í bekknum sem hún telur til vini sína, en vandamálið er ekki bekkurinn, heldur það sem gerist eftir skólann. 

Hún hringir og ég skutla henni að spyrja eftir "vinkonum" sínum, en þær koma alltaf með einhverjar lélegar afsakanir. Nú er svo komið að ég er búin að banna henni að hringja í sumar þeirra, einfaldlega vegna þess að ég þoli ekki svipinn á henni lengur þegar henni er hafnað hvað eftir annað. Hún átti góða vinkonu í næsta húsi, en allt í einu vildi hún ekki leika lengur, eitt skiptið sem hún fór að spyrja eftir henni sagði litli bróðir hennar við hana:"Hún vill ekki leika við þig, henni finnst þú leiðinleg." Hvernig á 9 ára barn að geta unnið úr svona?

Í gær hitti hún 3 stelpur niðri á Stakkó, tvær þeirra, og þá sérstaklega ein, voru einu sinni mjög góðar vinkonur hennar. Þær komu heim og léku sér í klukkutíma, svo fóru þær allar út. Eftir smá stund kom dóttirin ein heim, ég spurði hvar hinar stelpurnar væru? "Þær þurftu að fara heim í mat." var svarið. Stuttu seinna sagði hún við mig:"Ég veit alveg að þær voru ekki að fara heim, ég heyrði xxxxxxx segja: Vorum við ekki bara að segjast fara heim til að losna við hana, erum við ekki að fara að leika?" Og ein þeirra kinkaði kolli. Ég veit ekki hvor tók þetta nærri sér, ég eða hún.

Nú er staðan þannig að mig langar helst að flytja burt af eyjunni með hana. Hérna er ekkert fyrir hana að sækja. En eins og eiginmaðurinn segir, þá er það ekki lausn vandans, en hver er hún þá? Hún er greind með athyglisbrest en ekki ofvirkni, hún er að bíða eftir að fara til barnalæknis í Reykjavík, vonandi getur hún hjálpað henni eitthvað, en það leysir samt ekki þessa félagslegu einangrun sem hún er fyrir. 

Mér finnst ég vera að upplifa eineltið á mér aftur í gegnum hana, vonandi verður það þó ekki jafn slæmt og það sem ég lenti í. Ég er enn þann dag í dag að eiga við það, ég hef aldrei farið á  árgangsmót og langar ekki til þess. Mig langar ekki að hitta stelpurnar sem lögðu mig í einelti, þó að þær séu sennilega löngu búnar að gleyma þessu. Ég flutti úr heimabyggð minni strax eftir 10. bekk og hef enga löngun til að flytja þangað aftur, þó svo að ég eigi bæði systur og bróður þar, fyrir utan svo börnin þeirra og aðra ættingja. Verður þetta líka svona hjá henni? Flytur hún af eyjunni 16 ára til þess aldrei að flytja hingað aftur? Verður þetta minningin sem mun fylgja henni út lífið, krakkar sem eyðilögðu fyrir henni barnæskuna? Enn er ekki of seint að breyta þessu, en hvað get ég gert? Ég veit hvernig er að vera sá sem er lagður í einelti en hvernig tækla ég þá sem leggja í einelti? Ég kann það ekki, hef ekki hugmynd um hvað ég á að gera.

Ef þetta væri vandamál í skólanum myndi ég að sjálfsögðu hafa samband við skólann, en þetta er aðallega utan skólatíma. Það var einn strákur í bekknum hennar sem lagði hana í einelti, ég hafði samband við móður hans og nú er það allt í lagi. Takk fyrir það.

Síðustu helgi var hún ein heima hjá mér alla helgina. Þetta er venjuleg helgi hjá henni, ein heima með mömmu. Engin til að leika við nema mamma og kötturinn. Hún er hætt að reyna að hringja í stelpurnar um helgar, meira að segja frænkur sínar, það er alltaf sama svarið. Þegar við erum búin að fá höfnun nógu oft hættum við að reyna, það er bara eðli mannsins. 

Er ennþá að spá í að flytja héðan þrátt fyrir þessa útrás. 

 


Typpabrókin

Fyrir jólin var, eins og undanfarin ár, haldinn handverksmarkaður hérna í Eyjum. Það sem var "óvanalegt" var að ég ákvað að taka þátt.

Ég prjónaði helling af húfum og grifflum, en á meðan ég var að prjóna kom einginmaðurinn til mín og spurðu afhverju ég prjónaði ekki typpabrók, eins og við höfðum séð á netinu. Ég gæti þá látið bjóða í hana og gefið söluandvirðið til góðgerðarmála. Ég lét ekki segjast tvisvar og fitjaði upp á einni slíkri. Ég ákvað að hafa hana svolítið jólalega, svona í anda jólanna og áður en dagurinn var búinn datt þetta af prjónunum:

 

ehv_002_1077373.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það komu nokkur boð í hana og seldist hún loksins á 5400 kr sem ég gaf svo til innanbæjar-hjálparstarf kirkjunnar. 

Annars hef ég verið að hekla undanfarið, koma vonandi myndir fljótlega.


Hættu þessu væli og haltu áfram að vinna

Og ég hélt áfram að vinna. Í tæp 4 ár keyrði ég mig áfram á hörkunni, en þó fyrst og fremst þrjóskunni. Þó að ég væri ekki vinnufær fyrir verkjum, mætti ég alltaf í vinnu, jafnvel þó að ég þyrfti að draga mig áfram á tönnunum, þá mætti ég í vinnu og stóð mína plikt. Á þessu tímabili fékk ég allskonar glósur, eins og :

Hættu þessu væli og haltu áfram að vinna.

Þetta er bara ímyndun.

Það eru margir sem hafa það miklu verri en þú.

Þetta er allt í hausnum á þér.

Reyndu bara að láta sem ekkert sé, þá finnur þú ekki fyrir verkjunum.

.......og allskonar athugasemdir frá fólki sem þekkti ekki til þennan sjúkdóm sem ég er með. Verst finnst mér þó, hvernig ég kom fram við sjálfa mig, ég taldi mér trú um að þetta væri satt sem fólk var að segja við mig, og fannst ég bara vera aumingi og letingi og ég veit ekki hvað. 

Á þessu tímabili prófaði ég allskonar lyf, sem ekki virkuðu á mig eins og ætlast var til og varð ég að hætta á þeim, sum kölluðu fram ofnæmi hjá mér, önnur mátti ég ekki taka vegna blóðtappa sem ég fékk þegar ég gekk með yngstu dótturina og enn önnur virkuðu bara ekki á mig.

Í nóvember s.l. var staðan orðin þannig, að ég bara gat ekki meir. Ég fór til læknis, hann setti mig í veikindafrí og hef ég verið í fríi síðan. Ég veit ekki hvort eða hvenær ég fer aftur að vinna, ég er satt að segja ekki viss um að ég geti unnið í fiski meira, það verður bara að koma í ljós.

Og hvað er svo að mér? Jú, ég er með vefjagigt. Ég greindist með hana 1999, fór strax í afneitun, ég væri allt of ung til að vera með gigt, og hélt áfram að vinna eins og enginn væri morgundagurinn. Ég gerði mér enga grein fyrir því hversu veik ég var, þegar ég fór í veikindafrí, en þessar vikur sem ég hef verið heima, hef ég komist að því að ég var miklu veikari en ég taldi mig vera. Dagarnir hjá mér voru þannig, að ég mætti í vinnu og vann mína 5 tíma. Þegar ég kom heim var ég búin á því og var sófinn minn uppáhaldsstaður restina af deginum. Jú, ég eldaði handa fjölskyldunni og setti í uppvöskunarvélina, en þar með var það líka upp talið sem ég gerði restina af deginum. Helgarnar fóru svo í að taka til það sem ég hafði ekki gert alla vikuna. Þreytan sem fylgir vefjagigtinni er svo rosaleg, að það er ekki hægt að reyna að útskýra það fyrir þeim sem ekki þekkja til. Suma daga þarf ég að leggjast og hvíla nokkrum sinnum yfir daginn. Aðra daga get ég haldið mér gangandi og gert það sem er ætlast til af mér og er það bara gott.

Nú er staðan þannig, að ég fer reglulega í sjúkraþjálfun og tvisvar í viku í gigtarleikfimi (ég var í leikfiminni í haust, en svaf oft yfir mig því að ég var svo þreytt eftir vinnudaginn). Síðan fer ég reglulega í viðtal hjá Virk og hefur það hjálpað mér mikið, ég vissi ekki hvaða rétt ég hafði áður en ég byrjaði að fara þangað. Dagarnir eru þannig að það eru slæmir dagar og ekki svo slæmir dagar. Ég er búin að sætta mig við að ég muni aldrei læknast af vefjagigtinni og nú er stefnan tekin á það að læra að lifa með henni.

Varðandi vinnu, þá tek ég bara einn dag í einu og stefni að því að fara aftur út að vinna einhverntímann, en núna er vinnan mín að ná mér eins góðri og ég get orðið og tek þann tíma í það sem ég þarf.

 


Húfur og peysur

ehv_prjonarugl_002_1052543.jpg

                                                           

Prjónuð og þæfð, tvöfaldur plötulopi

 

ehv_prjonarugl_003_1052550.jpg                                                          

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

ehv_prjonarugl_004.jpg                                                             

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Húfa og grifflur, gert eftir pöntun.

 

ehv_prjonarugl_005.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stundum gerist það, að ég sé garn í verslun og veit nákvæmlega hvernig ég ætla að hafa hlutinn, það gerðist einmitt með þessa peysu, ég sá þessa tvo liti í hylluni og vissi um leið að svona ætti peysan að vera.

 

ehv_prjonarugl_006.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hérna var ég að reyna að blanda saman færeyska og íslenska upprunanum mínum saman í eitt munstur.

Meira var það ekki í bili :)

 


Þrjár lopapeysur

Jæja, þá er bloggletin alveg að gera út af við mig. Það er nú samt ekki eins og ég hafi ekki prjónað neitt síðan í sumar, síður en svo. Ég hef verið að dunda mér við að búa til mína eigin munsturbekki á lopapeysur, með misjöfnum árangri, en get þó sýnt ykkur þrjár peysur sem ég gerði í sumar.

allskona_skit_052.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hugmyndina að þessari fékk ég þegar ég labbaði framhjá verslun hér á eyjunni og voru fleece-jakkar með rennilás á ská í glugganum. Ég hugsaði með mér hvort að það væri ekki hægt að gera eitthvað sem líktist þessu og þetta varð útkoman, og er ég bara nokkuð ánægð með hana.

 

allskona_skit_053.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég ákvað að hafa einskonar grifflur prjónaðar með í ermina, en í örðum lit og undir stroffinu.

allskona_skit_054_1050277.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta varð svo útkoman á munsturbekknum.

allskona_skit_056.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég get nú varla eignað mér þennan munsturbekk, ég sá mynd af svipaðri peysu einhver staðar á netinu, man ómögulega hvar, og fór og teiknaði eitthvað svipað niður. En ég er sátt með hvernig til tókst, svo ég segi nú sjálf frá.

allskona_skit_060.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta er fyrsta peysan af þessum þrem sem ég prjónaði, ég var með allt aðra hugmynd í kollinum þegar ég byrjaði, en bekkurinn endaði sem sagt svona. Ég er ekki 100% ánægð með hann, ætla að breyta honum eða búa til alveg nýjan við tækifæri.

allskona_skit_058.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta er svo öll peysan.

Þessar peysur eru allar prjónaðar út tvöföldum plötulopa á prjóna nr. 7 og eru til sölu í Gallerý Heimalist á Strandvegi í Vestmannaeyjum.

 


Sorry

Eins og sést hef ég ekkert bloggað síðan í janúar á þessu ári, og að sama leiti hef ég varla snert prjónana fyrr en í Færeyjum í júní, en eftir að ég kom heim aftur úr þeirri ferð fékk ég prjónabakteríuna aftur og hafa prjónarnir varla náð að kólna síðan.

Það sem tók gjörsamlega allt loft úr mér og læknaði þessa prjónadellu tímabundið, var ekki einhver kraftaverka lækning (enda vil ég ekki læknast af þessari bakteríu), heldur óánægður og ósanngjarn viðskiptavinur. Þannig var mál með vexti, að ég var beðin að prjóna vesti fyrir eina konu. Ég fékk (að ég held) skýrar lýsingar á því, hvernig það átti að vera og prjónaði það fyrir hana. Svo þegar hún kom niður í Gallerý að ná í það, þá var það of stutt, of þröngt, of hátt í hálsinn og of þröngt í hálsinn. Þetta var á miðri vorvertíð og mikið að gera hjá mér í vinnunni. Þá fór hún fram á að ég prjónaði nýtt vesti fyrir sig, en ég sagði eins og satt var, að ég hefði engan tíma til að prjóna vegna anna í vinnunni. Þetta varð til þess að ég snerti ekki prjónana í nokkra mánuði, eða þangað til ég kom til Færeyja og náði svona aðeins að hreinsa hugann, að bakterían gerði aftur vart við sig og restina vitið þið. 

Hér koma nokkrar myndir af því sem ég hef gert undanfarið, en það er þó alls ekki allt.

thjo_o_2010_038.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þjóðlegar skotthúfur úr tvöföldum plötulopa, hugmyndina fékk ég úti í Færeyjum þegar ein vinkona frænku minnar kom með svona húfu frá Íslandi

thjo_o_2010_039.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stelpurnar mínar að leika módel fyrir mömmu sína. Þessa grænu prjónaði ég á karlinn, hann fór í hana og tilkynnti mér að hún stakk og fór úr henni aftur (hún er úr Alfa), síðan hefur hún legið uppi í skáp í nokkuð langan tíma, eða þangað til að ég ákvað að selja hana bara og fór með hana niður í Gallerý og seldist hún nokkrum dögum seinna. Þessa hvítu og grænu þekkið þið frá blogginu á undan, en loksins kláraði ég hana og er hún núna niðri í Gallerý Heimalist. Sú brúna fór líka niður í Gallerý og seldist hún líka mjög fljótlega.

thjo_o_2010_040.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Séð aftan á

thjo_o_2010_041.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tvær yngri stelpurnar vildu fá skotthúfur fyrir Þjóðhátíð og fékk Sunna svarta úr Viking Balder garninu

thjo_o_2010_046.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ágústa litla skotta fékk að sjálfsögðu bleika, einnig úr Viking Balder, en það stingur ekki.

thjo_o_2010_047.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Yðar einlæg með svörtu húfuna á prjónunum.

Er með eitthvað fleira að sýna ykkur þegar það er tilbúið til myndatöku, vonandi líður ekki alveg svona langur tími þangað til.

Kveðjur


ca. 12 kíló

Nei, ég er ekki búin að missa 12 kíló á síðasta ári, því miður, en ég prjónaði úr 12 kílóum.

Í janúar á síðasta ári ákvað ég að safna öllum miðunum sem eru utan um garndokkurnar. Ég verð að viðurkenna að það kom mér svolítið á óvart þegar ég hellti úr boxinu um áramótin, ég gerði mér ekki grein fyrir hvað þetta voru í raun og veru margir miðar.

aramot_o_a_037.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hérna er allt snyrtilega raðað í boxinu. Fyrst vissi ég ekki hvað ég ætti að gera í sambandi við plötulopann, en fann mér svo blað og gerði strik fyrir hver 100 gröm sem ég notaði.

 

aramot_o_a_038.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Öll hrúgan komin á borðið, svo var bara að byrja að sortera og telja, og var útkoman þessi:

Plötulopi 6200 gr.

Léttlopi 950 gr.

Hespulopi 100 gr.

Flóra 50 gr.

Handspunnin lambsull frá Ullarselinu á Hvanneyri 50 gr.

Kauni 460 gr.

Silver dream 1200 gr.

Fritidsgarn 350 gr.

Smart 200 gr.

Sandnes Alpakka 50 gr.

Lanett 150 gr.

Chili 100 gr.

Trysil Baby garn 350 gr.

Garnstudio Baby ull 50 gr.

Noro 100 gr.

Navia duo 150 gr.

Steinbach Wolle Julia Color 50 gr.

Steinbach Wolle Babi effect 150 gr.

California Bermuda 350 gr.

Patons Aran 400 gr.

Hayfield Aran 300 gr.

BC Garn Lucca 100 gr.

Needles 50 gr.

Himalaya 50 gr.

Samtals gerir þetta 11.960 gr.

Svo notaði ég eitthvað af afgangi sem ég hef ekki skráð niður, svo þetta gerir rúm 12 kg. Ekki amalegt það. Núna er ég búin að ákveða að nota eins mikið af plötulopanum sem ég á í geymslu og ég get án þess að kaupa nýjan, en ef það er einhver litur sem mig vantar er það bara allt í lagi, maður verður nú aðeins að fá að gleðja sjálfan sig, er það ekki?


Restin af prjóni 2009

Hérna koma loksins myndir af því síðasta sem ég prjónaði árið 2009

aramot_o_a_031.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þessar tvær voru prjónaðar eftir pöntun handa kærustupari. Dömupeysan er úr tvöföldum plötulopa, en herrapeysan er úr þreföldum plötulopa.

aramot_o_a_030.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólagjöfin handa tengdó, tvöfaldur plötulopi

 

aramot_o_a_034_949407.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég gat að sjálfsögðu ekki látið prjónana vera um jólin, þessa prjónaði ég handa sjálfri mér.

aramot_o_a_029.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Miðlunginum mínum langaði í pokahúfu, svo það fékk hún.

aramot_o_a_015.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sú stutta vildi líka fá, að sjálfsögðu, bara með bleikum blómum.

 

aramot_o_a_036.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég prjónaði þessa í sumar, hún er þæfð, svarta munstrið er prikkað með nál eftir þæfingu.

 

aramot_o_a_035.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

aramot_o_a_032.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta er svo það allra síðasta sem ég prjónaði á síðasta ári, kláraði reyndar síðustu 10 umferðirnar á nýársnótt.


Kjóll/skokkur

Fyrir þremur vikum síðan fórum við fjölskyldan í sumarbústað saman í Ölfusborgum. Þegar ég er þar er fastur liður að kíkja inn í Hannyrðabúðina í Hveragerði, þessi sem er við hliðina á Bónus. Þar sá ég garn sem hreinlega kallaði á mig. Ég vissi nákvæmlega hvað ég ætlaði að prjóna úr því, hugsa að flestar prjónakonur kannist við þessa tilfinningu. Ein dokka var nóg, enda var hún 350 gr. Fyrst keypti ég dökk græna, en gat aldrei hætt að hugsa um þessa svörtu/gráu sem ég sá í glugganum. Svo þurfti sú stutta að skreppa á klósettið og gat alls ekki beðið eftir að komast upp í bústað. Ég greip tækifærið og skaust inn í búðina og verslaði mér eina dokku. 

Þegar ég kom heim fór ég að leita að uppskrift, en fann enga sem var eins og það sem ég hafði í huga, þannig að ég notaðist við tvær uppskriftir, önnur fyrir neðri partinn og hin fyrir efri partinn. Neðri parturinn er prjónaður úr einum þræði af garninu góða, sem heitir California Bermuda frá Cewec, og einum þræði plötulopa á prjóna nr. 6, en efri parturinn er prjónaður eingöngu úr garninu. Mér tókst að klára kjólinn fyrir helgarferðina með vinkonunum síðustu helgi og auðvitað var hann tekinn með, nema hvað. Ég er bara nokkuð sátt við útkomuna, hefði kannski viljað haft hann aðeins síðari, er of stuttur fyrir sokkabuxur, en þá eru það bara leggings sem gilda.

ehv_002_937687.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hérna er svo gripurinn, hlýr og góður fyrir veturinn. Það á svo eftir að koma í ljós hvað ég nota hann mikið.

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Matthilda M. Eyvindsd Tórshamar

Höfundur

Matthilda M. Eyvindsd Tórshamar
Matthilda M. Eyvindsd Tórshamar
Móðir, eiginkona, verkakona og handavinnu- og föndurkona
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 2012 2013 335
  • 2012 2013 336
  • 2012 2013 337
  • 2012 2013 338
  • 2012 2013 340

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband