18.11.2007 | 13:24
Úr öllum áttum
Það er ekki eins og það hafi ekkert verið til að blogga um síðustu daga, alls ekki. Málið er bara það, að litla skottan er orðin algjört tölvunörd og er búin að finna einhvern rosalega skemmtilegan leik.
Við erum búin að setja húsið á sölu. Ætlum að hafa það á sölu í einhverja mánuði, ef það selst ekki, er ætlunin að taka endurbótarlán og gera upp, allavega að klæða og fá nýtt eldhús. Ég vona samt að það seljist, kvíði svolítið fyrir svona framkvæmdum. Svo vantar okkur líka annað herbergi, litla skottan er orðin 5 ára og er ennþá inni hjá okkur. Hún fer í skóla næsta haust, þá verður hún að vera búin að fá sitt eigið herbergi. Það er eitt hús, sem okkur lýst vel á sem er til sölu, ef okkar hús selst og ekki verður búið að selja hitt, getur vel verið að við gerum tilboð í það.
Ég lenti í mínu fyrsta umferðaróhappi (þar sem ég er við stýrið, allavega) á fimmtudaginn. Ég var að koma úr Vöruval, var á Vesturveginum að bíða við gatnamótin við Heiðarveg. Það voru tveir bílar fyrir framan mig. þegar ég ætlaði að keyra af stað, bakkaði bíll út úr bílastæðinu við gömlu bókabúðina (Vesturvegar megin) og bakkaði beint á hornið á bílnum. Já, ég var á honum palla (pallbílnum), svo það sé á hreinu. Georg var uppi á landi með hvíta bílinn að reyna að skipta. Ég þekki ekki manninn, sem keyrði hinn bílinn, hann sagðist ekki búa hérna, en var á bíl foreldra sinna. Við vissum ekkert, hvað við ættum að gera, en hann hringdi svo í lögguna, hann kom eftir einhverjar tvær mínútur og tók skýrslu. Þetta var bara alt í góðu og engin ágreiningur. Það sér svolítið mikið á palla, en ljósin eru í lagi, það kom bara smá rispa á hinn bílinn, sem er jeppi. Ég var á leiðinni að ná í skottuna í fimleika, en varð auðvitað alt of sein, en Helgi náði í hana fyrir mig, enda var hann að ná í sína skottu í fimleika. Við stelpurnar, ég og allar þrjár dæturnar, höfðum ákveðið að nota tækifærið fyrst að Georg var ekki heima og hafa kjúlla í matinn. Hann beið í bílnum, hrár og fölur, á meðan allt þetta gerðist, en góður var hann.
Við vinkonurnar ákváðum fyrr í vikunni að fara út í gærkvöldi og dansa, sem að við og gerðum. Rosalega var gaman. Það eru mörg ár, síðan ég dansaði svona mikið. Þarna var áhöfnin af einhverjum síldarbát, sem var að landa, og rakst ég á mann, sem þekkir Valbjörn. Hann er skipstjóri frá Vopnafirði. Það fer aldrei svo, að maður hitti ekki einhvern sem þekkir hann Valbjörn, það virðast bara allir þekkja hann. Þarna var einn gaur, sem vildi ólmur dansa við okkur/mig. Ég sagði við hann, að ef hann vildi bara skemmta sér og dansa, mætti hann alveg hanga með okkur, en ef hann vildi eitthvað meira, yrði hann að finna sér annan dansfélaga, bara svo það væri á hreinu. Hann sagðist bara vilja skemmta sér og við dönsuðum og dönsuðum. Þegar við fórum svo heim, ég og vinkonan, fór ég auðvitað og kvaddi hann og þakkaði honum fyrir frábært kvöld, þá sagðist hann ekki hafa skemmt sér svona vel lengi, lengi. Sama segi ég. Við röltum svo tvær einar heim.
Ein skemmtileg saga svona í lokin.
Þessar kisur sem hafa ákveðið að búa hjá mér, eru alveg ótrúlegar. Tommi elskar, þegar Georg kemur heim með fisk. Hann er kannski búin að sofa niðri í kjallara allan daginn, en um leið og fiskurinn er komin í hús er hann mættur. Um daginn var ég svo að snyrta nokkrar ýsur, hann og Blíða fá alltaf sinn skammt. Það heyrðist urr og hvæs, láttu þetta vera ég á.......var hann að reyna að segja við Blíðu. Hún bakkaði frá, en svo sá ég hana laumast fyrir horn inn í eldhús og næla sér í bita með einni kló, á meðan Tommi sá ekki til. Það var alveg milljón að fylgjast með þessu. Hann tók ekki eftir neinu, borðaði bara hinn rólegasti, viss um að hann ætti þetta alt saman.
Megið þið eiga góðan sunnudag og viku sem er að byrja.
Um bloggið
Matthilda M. Eyvindsd Tórshamar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þú lendir alltaf á "sjéns"
.....Við Díana elskum líka Georg þegar hann kemur heim með fisk!
Baun.. (IP-tala skráð) 18.11.2007 kl. 19:32
Já, Baunin mín, það er annað með þessar sem eru á lausu og vilja lenda á sjéns.
Matthilda M. Eyvindsd Tórshamar, 21.11.2007 kl. 16:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.