Dóttir drykkjumannsins

Ég las viðtal í helgarblaði Fréttablaðsins við Guðmund Ragnar Einarsson og Gunnar Helgason, þar sem Guðmundur segir frá skömminni sem börn alkóhólista finna. Þetta fór með mig mörg ár aftur í tímann, til tíma sem ég hef reynt að gleyma allt mitt líf.

Allt í einu var ég komin aftur í gamla, hrörlega húsið í fjörunni. Við bjuggum í litlu samfélagi þar sem allir vissu allt um alla, meira að segja börnin sem ég var í bekk með.

Pabbi minn var drykkjumaður. Hann var sjómaður og var stundum í burtu í marga mánuði, en þegar hann kom heim byrjuðu lætin. Mér leið oftast vel þegar hann og bræður mínir, sem drukku líki mikið á þeim tíma, voru á sjó. Þá var lífið svona nokkurn veginn eðlilegt, eða amk. fannst mér það á þeim tíma.

Mig kveið alltaf fyrir þegar ég vissi að þeir voru á leiðinni í land, ég vissi hvað væri að fara að gerast. Heilu stæðurnar af bjór voru bornar inn í bleika húsið í fjörunni, eins frauðkassar með víni í. Svo byrjaði ballið. Hávær tónlist langt fram á nótt, hálfur bærinn inni í stofunni og oft fólk frá byggðunum í kring. Rifrildi, slagsmál, blóð og öskur. Ég man eftir einu skipti að pabbi hafði dottið og skorist á eyra. Það var enginn læknir í byggðinni og mamma saumaði hann saman með svörtum tvinna.

Eitt skiptið kom bróðir minn inn með rollu, þeim fannst þetta svooo fyndið, en ég fann hræðsluna hjá grey rollunni og fór að gráta. Annað skiptið komu þeir með kanínu sem þeir höfðu fundið og fannst voða fyndið að koma með hana inn, en líka þarna skynjaði ég óttann hjá aumingja dýrinu. Þetta situr svo fast í mér, tilfinningin sem ég skynjaði gegnum dýrin.

Oft fór ég illa eða ósofin í skóla, en ekki tók betur við þar. Þar sem þetta var svo lítið samfélag spurðist svona lagað út fljótt, en hvernig 8-10 ára gömul börn vissu þetta veit ég ekki, sennilega hafa þau verið viðstödd þegar fullorðna fólkið var að tala saman. Allavega vissu þau þetta alltaf þegar ég mætti í skólann. Ég var lögð í eineldi út af þessu og leið mjög illa, en verst var þó skömmin. Skömmin yfir því að pabbi og bræður mínir hefðu verið fullir. Í samfélaginu sem ég ólst upp í var mikið um kristindóm, og þeir sem lifðu ekki eftir biblíunni voru dæmdir, útskúfaðir, rusl. Allavega leið mér þannig. Ég burðaðist við skömmina og ekki síst meðvirknina þar sem ég reyndi að þræta fyrir þetta allt saman, en það endaði þó með því að ég hætti að reyna að verja þá, það þýddi ekkert. Allir vissu alltaf betur en ég. 

Jólin hjá okkur einkenndust af drykkju, þegar pabbi var orðinn fullur voru jólin alveg að koma og mig fór að hlakka til, enda þekkti ég ekkert annað. Það var ekki fyrr en ég var orðin fullorðin að ég kynntist því, hvernig jólin voru hjá venjulegu fólki. Mér fannst ekkert eðlilegra en að pabbinn á heimilinu væri drukkinn um jólin. Ég varð ekki lítið hissa þegar pabbi kærasta mins á þeim tíma mætti edrú til jólahaldið. Þetta var ekki eðlilegt, maðurinn var edrú, ætlaði hann ekki að fá sér að drekka? Ætlaði hann í alvörunni bara að drekka gos? Hann hlyti að ætla að blanda einhverju út í það. 

Ég vil taka það fram, að pabbi minn var alltaf góður við mig, hvort sem hann var edrú eða drukkinn.  Mér fannst pabbi skemmtilegur þau fáu skiptin sem hann var edrú, en þegar hann drakk óskaði ég þess oft að hann myndi deyja. Ekki gat ég vitað að ég myndi fá þá ósk uppfyllta.

Svo fluttum við í annað hverfi í nýtt hús. Ég hélt að nú myndi allt lagast, en svo var aldeilis ekki. Þarna kynntist ég bestu vinkonum mínum sem ég held ennþá sambandi við. Þar sá ég fyrst, hvernig lífið átti að vera. Þar fékk ég að gista þegar lætin og álagið urðu of mikil heima.

Eitt skiptið, þegar fylliríið hafði staðið í marga daga, fór ég sem oftast að gista hjá vinkonu minni. Mamma var á spítala eftir vinnuslys. Ég kíkti inn í stofu og þar sátu pabbi og tveir aðrir karlar og sungu færeysk ættjarðarljóð. Ég vissi að þetta yrði í síðasta skiptið sem ég sá pabba. Þegar ég vaknaði um morguninn var það fyrsta sem ég hugsaði að nú væri pabbi uppi hjá Guði. Stuttu seinna kom sameiginleg vinkona okkar og sagði vinkonu minni frá því að pabbi hefði fundist látinn, þarna var ég 11 ára gömul.

Skömmin hefur fylgt mér gegnum lífið. Ég hef þurft að heyra oftar en einu sinni að: "Þið Tórhamar eruð öll eins, bölvaðar fyllibyttur." Jafnvel frá fólki sem þekkir mig ekki neitt. Verst finnst mér þó þegar vinkonum dætra minna er bannað að vera með þeim vegna þess að: "ALLIR Tórshamar eru dópistar" ?????? Wtf....?????? Dópistar????? Ég veit ekki um einn einasta Tórshamar sem er í dópinu. En nú er ég komin út í allt annað. 

Skömmin já. Ég man einu sinni þegar einn bræðra minna lenti hjá lækni vegna drykkju, að ég átti tíma hjá þessum sama lækni nokkrum dögum seinna. Einhvern veginn þróaðist það þannig að við fórum að tala um bróðir minn og ég sagði við lækninn að ég skammaðist mín svo fyrir drykkjuna hjá honum. Þá sagði læknirinn nokkuð sem opnaði augu mín og fékk mig til að stoppa og hugsa. Hann sagði: "Matta mín, þú þarft ekki að skammast þín fyrir það sem hann gerir, þú ert þú og hann er hann. Þið eruð ekki sama manneskjan." Þegar ég kom heim frá honum fór ég að hugsa að þetta væri alveg rétt hjá honum. Ég hafði ekkert að skammast mín fyrir, ég smakkaði ekki alkahól. Efir þetta fór skömmin að minka smátt og smátt, og smám saman breyttist ég og viðhorf mitt til vín. 

Það er búið að taka mörg ár að losna við skömmina og stundum skýtur hún upp kollinum, en þá hugsa ég um það sem læknirinn minn sagði við mig fyrir mörgum árum síðan og þá hverfur hún.

Þegar ég hugsa til þessa tíma, fyllist ég sorg yfir að enn eru börn sem ganga í gegnum þetta sama. Börn eiga ekki að þurfa að hafa áhyggjur yfir því, hvort mamma eða pabbi fari kannski að drekka. Ég tók þá ákvörðun mjög ung að ég ætlaði ekki að giftast manni sem drakk mikinn bjór og við það stóð ég. Flestir í Eyjum vita hver eiginmaðurinn minn er og vita hvaða mann hann hefur að bera. Mér líður vel í dag og lít björtum augum til framtíðina, þar sem skömmin fær ekki að vera ferðalangi með mér. 

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þórðarson

Kærar þakkir fyrir þessa frábæru færslu.

Hörður Þórðarson, 14.4.2014 kl. 08:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Matthilda M. Eyvindsd Tórshamar

Höfundur

Matthilda M. Eyvindsd Tórshamar
Matthilda M. Eyvindsd Tórshamar
Móðir, eiginkona, verkakona og handavinnu- og föndurkona
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 2012 2013 335
  • 2012 2013 336
  • 2012 2013 337
  • 2012 2013 338
  • 2012 2013 340

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband