Mamma segir að ég má ekki leika!

Adam var ekki lengi í paradís, eða í þessu tilfelli hún dóttir mín. Það er allt að vera komið aftur í sama sporið. Fyrst eftir að ég bloggaði um stöðu hennar hafði hún nóg af krökkum að leika við, en núna vill engin leika við hana lengur.

Hún spyr eftir krökkunum, en þau koma bara með afsakanir ofan á afsakanir. 

"Mamma segir að ég má ekki leika" Er fullorðna fólkið nú farið að taka þátt í þessu?

"Ég er að leika við aðra stelpu" Og? Er ekki hægt að vera þrjár saman?

"Ég ætla bara að vera með fjölskyldu minni" Ok, skiljanlegt, en í hvert einasta skipti sem hún spyr?

"Ég á að fara snemma að sofa" Gott mál, en kl 18?

"Ööööööhhhhh.........hérna...........ehhhhh...........ég er að fara að pakka niður, ég er að fara upp á land á morgun, sko" Greinilega verið að leita að afsökun.

Ef einhver svo segir já og þær eru fleiri en tvær, er farið í leiki sem vitað er að dóttur minni finnst leiðinlegir og hún fer heim. 

Ef hún hefði ekki fimleikana, tónlistarskólann og hestana myndi hún hanga hérna heima allan daginn og láta sér leiðast. Ég reyni eftir mesta megni að hafa ofan fyrir henni, en það er takmarkað hvað maður getur gert. Henni finnst gaman að fá að hjálpa mér að sá fræjum og rækta garðinn og er hún mjög dugleg þegar hún er með mér. Henni leiðist að hanga með mér á vinnustofunni of lengi og verður pirruð. Hún er oft ein úti að leika sér, jafnvel þótt að það séu fullt af krökkum hérna í kring líka úti að leika. Ég held að hún hafa bara gefist upp á að spyrja, frekar sleppa því heldur en að fá nei. Þannig myndi ég allavega hugsa.

Skólinn er reyndar búin að vera alveg frábær. Ef eitthvað kemur uppá er strax tekið á því. Eftir að ég skrifaði fyrstu greinina kom í ljós að sumir krakkarnir voru andstyggilegir við hana í skólanum líka, en núna líður henni vel þar. Ég spyr hana á hverjum degi hvernig var í skólanum, og hún svarar yfirleitt alltaf að það hafi verið gaman. En hún lætur mig líka vita ef eitthvað hefur komið upp á í skólanum, sem betur fer. 

Ég veit ekki hvað það er í fari dóttur minnar sem gerir það að engin vill leika við hana. Jú, hún er fiðrildi sem flögrar frá einu í annað, en ég trúi varla að það sé ástæðan. Er hún stjórnsöm við hina krakkana? Eða er það af því að hún lætur ekki stjórna sér? Það getur líka verið nóg að einhver einn krakki hafi sagt í stórum hóp að hún sé leiðinleg, þá er hún búin að fá þann stimpil á sig og þegar við erum búin að fá stimpil er erfitt að losna við hann aftur, það veit ég af reynslunni, og þá sérstaklega í svona litlu samfélagi eins og hérna í Eyjum.

Um helgina er hún að fara á fimleikamót uppi á landi. Ég er ekki viss um hvort að ég eigi að leyfa henni að gista þar sem hinir krakkarnir eru eða vera á gistiheimili með mér. Ef hún fer fram á að fá að vera með krökkunum leyfi ég henni það sennilega, en ég verð líka viðbúin því að þurfa að fara að ná í hana seint um kvöld. En hún hefði örugglega gott af því að vera með hinum krökkunum, það er ekki spurning. Bæði það að sleppa aðeins takinu á mömmu og fyrir hina krakkana að kynnast henni betur.

Í dag er fyrsti sumardagur og það veit náttúrulega enginn hvað framtíðin ber í skauti sér, en vonandi verður sumarið gott hjá dóttur minni og hún verður úti að leika sér í góðum félagsskap allan daginn, en ekki ein heima með mömmu og kisu.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sannarlega sorgleg lesning Matthilda mín.  Það þarf ekki að vera annað en eins og þú segir að einhver vinni gegn henni, gæti verið afbrýðisemi.  Ég veit alveg hvernig krakkar geta verið.  Stelpan mín sem er hér hjá mér lenti í þessu í vetur og það var ein stelpa sem var afbrýðisöm út í hana sem stjórnaði þessu.  En svo snérist þetta við og mín náði öllum sínum vinkonum til baka, þær eru að vísu 15 ára, veit ekki hvað þín er gömul. 

En ekkert barn á að þurfa að ganga í gegnum svona. Hér er afar vel fylgst með þessum málum.  Er ekki sálfræðingu sem kemur til ykkar af og til?  Það mætti byrja þar, og út frá því skilgreina vandann.  Sendi þér og dóttur þinni alla mína samúð. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.4.2012 kl. 12:01

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þá er ég að meina með sálfræðing að hann hefur ef til vill úrræði til að finna út hvað er í raun og veru í gangi meðal krakkanna þarna.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.4.2012 kl. 12:02

3 identicon

Frábært hjá þér að halda áfram að blogga um þetta. Svona leysist ekki á einni nóttu og það verður að halda fólki við efnið. Vonandi getur skólinn unnið eitthvað í því að skoða hvaða dýnamík er í gangi í hópnum. Gangi ykkur vel!

Ása (IP-tala skráð) 19.4.2012 kl. 18:11

4 Smámynd: Ragnheiður

Þetta er leiðinlegt að lesa og ómögulegt að segja hvað veldur þó að líklega sé það undirróður einhvers annars krakka. Það er synd að við fullorðnu getum ekki verið skárri fyrirmyndir barna okkar.

Vonandi lagast þetta

Ragnheiður , 20.4.2012 kl. 02:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Matthilda M. Eyvindsd Tórshamar

Höfundur

Matthilda M. Eyvindsd Tórshamar
Matthilda M. Eyvindsd Tórshamar
Móðir, eiginkona, verkakona og handavinnu- og föndurkona
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 2012 2013 335
  • 2012 2013 336
  • 2012 2013 337
  • 2012 2013 338
  • 2012 2013 340

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband