Hættu þessu væli og haltu áfram að vinna

Og ég hélt áfram að vinna. Í tæp 4 ár keyrði ég mig áfram á hörkunni, en þó fyrst og fremst þrjóskunni. Þó að ég væri ekki vinnufær fyrir verkjum, mætti ég alltaf í vinnu, jafnvel þó að ég þyrfti að draga mig áfram á tönnunum, þá mætti ég í vinnu og stóð mína plikt. Á þessu tímabili fékk ég allskonar glósur, eins og :

Hættu þessu væli og haltu áfram að vinna.

Þetta er bara ímyndun.

Það eru margir sem hafa það miklu verri en þú.

Þetta er allt í hausnum á þér.

Reyndu bara að láta sem ekkert sé, þá finnur þú ekki fyrir verkjunum.

.......og allskonar athugasemdir frá fólki sem þekkti ekki til þennan sjúkdóm sem ég er með. Verst finnst mér þó, hvernig ég kom fram við sjálfa mig, ég taldi mér trú um að þetta væri satt sem fólk var að segja við mig, og fannst ég bara vera aumingi og letingi og ég veit ekki hvað. 

Á þessu tímabili prófaði ég allskonar lyf, sem ekki virkuðu á mig eins og ætlast var til og varð ég að hætta á þeim, sum kölluðu fram ofnæmi hjá mér, önnur mátti ég ekki taka vegna blóðtappa sem ég fékk þegar ég gekk með yngstu dótturina og enn önnur virkuðu bara ekki á mig.

Í nóvember s.l. var staðan orðin þannig, að ég bara gat ekki meir. Ég fór til læknis, hann setti mig í veikindafrí og hef ég verið í fríi síðan. Ég veit ekki hvort eða hvenær ég fer aftur að vinna, ég er satt að segja ekki viss um að ég geti unnið í fiski meira, það verður bara að koma í ljós.

Og hvað er svo að mér? Jú, ég er með vefjagigt. Ég greindist með hana 1999, fór strax í afneitun, ég væri allt of ung til að vera með gigt, og hélt áfram að vinna eins og enginn væri morgundagurinn. Ég gerði mér enga grein fyrir því hversu veik ég var, þegar ég fór í veikindafrí, en þessar vikur sem ég hef verið heima, hef ég komist að því að ég var miklu veikari en ég taldi mig vera. Dagarnir hjá mér voru þannig, að ég mætti í vinnu og vann mína 5 tíma. Þegar ég kom heim var ég búin á því og var sófinn minn uppáhaldsstaður restina af deginum. Jú, ég eldaði handa fjölskyldunni og setti í uppvöskunarvélina, en þar með var það líka upp talið sem ég gerði restina af deginum. Helgarnar fóru svo í að taka til það sem ég hafði ekki gert alla vikuna. Þreytan sem fylgir vefjagigtinni er svo rosaleg, að það er ekki hægt að reyna að útskýra það fyrir þeim sem ekki þekkja til. Suma daga þarf ég að leggjast og hvíla nokkrum sinnum yfir daginn. Aðra daga get ég haldið mér gangandi og gert það sem er ætlast til af mér og er það bara gott.

Nú er staðan þannig, að ég fer reglulega í sjúkraþjálfun og tvisvar í viku í gigtarleikfimi (ég var í leikfiminni í haust, en svaf oft yfir mig því að ég var svo þreytt eftir vinnudaginn). Síðan fer ég reglulega í viðtal hjá Virk og hefur það hjálpað mér mikið, ég vissi ekki hvaða rétt ég hafði áður en ég byrjaði að fara þangað. Dagarnir eru þannig að það eru slæmir dagar og ekki svo slæmir dagar. Ég er búin að sætta mig við að ég muni aldrei læknast af vefjagigtinni og nú er stefnan tekin á það að læra að lifa með henni.

Varðandi vinnu, þá tek ég bara einn dag í einu og stefni að því að fara aftur út að vinna einhverntímann, en núna er vinnan mín að ná mér eins góðri og ég get orðið og tek þann tíma í það sem ég þarf.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skil þig mjög vel og veit alveg um hvað þú ert að tala, þetta er ekkert grín og engin ímyndun.

Kær kveðja

Ásdís Emilía Björgvinsdóttir (IP-tala skráð) 21.1.2011 kl. 21:00

2 Smámynd: Ragnheiður

Nei þetta er ekkert grín en viðhorf samfélagsins gera það að verkum að oft finnst manni skárra að mæta bara þegjandi í vinnuna !

ég þekki alveg hvað þú ert að tala um, nákvæmlega.

Ég vinn hjá sjálfri mér en er að breyta til að taka aðra vinnu með vegna þess að ég ræð ekki við vinnu eitt ...

Gangi þér vel mín kæra

Ragnheiður , 21.1.2011 kl. 21:04

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Svakalegar lýsingar, hvernig getur fólk sagt svona við aðra manneskju?  Ég verð reið þegar ég les svona.  Ég er sjálf með slitgigt, sem ég hef verið með tæp 40 ár, fyrir rúmlega þrjátíu árum var ég orðin svo þjáð í limum að ég var með endalausa verki og fór til læknis, hann sagði mér eftir rannsókn að þetta væri slitgigt og sagðist ætla að skrifa fyrir mig lyfseðilu upp á asperín, ég mætti taka allt að 8 töflum á dag.  'Eg spurði hann þá hvort þetta læknaði gigtina, nei sagði hann þetta slær á verkina.  Ég spurði hann hvort hann gæti ekki leiðbeint mér með betra matarræði eða slíkt, nei svaraði hann; ég hugsaði mig um smástund og sagðí svo, þú mátt eiga asperín töflurnar ég ætla ekki að bæta magasári ofan á gigtina.  Svo fór ég að leita mér leiða og fann í heilsuhringnum þetta með lýsið, þ.e. að taka það á morgnana og borða ekkert né drekka í klukkutíma á eftir, þetta þykkir liðvökvan og smyr þjáða limi.  Það var varað við því að það tæki allt að 6 mánuði að fara að virka þannig að maður tæki eftir því, og það gekk eftir, síðan hef ég tekið lýsið á hverjum morgni og hef algjörlega haldi þessari fjandans gigt í burtu öll þessi ár. En vonandi finnur þú lausn á þínum veikindum Matthilda mín, því þetta er ekkert grín. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.1.2011 kl. 23:15

4 identicon

Maður á að vera góður við sjálfan sig líka! Vð myndum ekki senda börnin okkar í skólann fárveik og auðvitað eigum við ekki að gera það við okkur sjálfar!!

Farðu vel með þig Matthilda mín, þú ert svo dýrmæt! 

 knúsar og styrkur <3 , 

Eydís frænks!

Eydís (IP-tala skráð) 24.1.2011 kl. 15:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Matthilda M. Eyvindsd Tórshamar

Höfundur

Matthilda M. Eyvindsd Tórshamar
Matthilda M. Eyvindsd Tórshamar
Móðir, eiginkona, verkakona og handavinnu- og föndurkona
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 2012 2013 335
  • 2012 2013 336
  • 2012 2013 337
  • 2012 2013 338
  • 2012 2013 340

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband